Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag

Alþjóðlega barokksveitin

Alþjóðlega barokksveitin

Tumo Suomi

Tumo Suomi

Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag er skipuð úrvals hljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri. Þar hafa þeir unnið með færustu leiðbeinendum á sviði barokkflutnings, svo sem Ton Koopman, Jaques Ogg, Ryo Terakado, Enrico Gatti, Elizabeth Wallfisch, Jaap ter Linden og Kuijken bræðrum.

Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Má þar nefna hljómsveitir á borð við Ricercar Consort, Les Arts Florissants, Amsterdam Baroque Orchestra, Bach Collegium Japan, Concerto Copenhagen, Orchestra of the Age of Enlightenment, Gabrieli Consort & Players, Collegium Vocale Gent, Capriccio Stravagante og Orcherstre des Champs-Élysées og stjórnendur á borð við Philippe Pierlot, William Christie, Masaaki Suzuki, Skip Sempé og Philippe Herreweghe.

Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Den Haag hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá því að þeir komu fyrst til að taka þátt í flutningi Jólaóratóríu Bachs í Hallgrímskirkju árið 2004, en síðast var sveitin fullskipuð hér 2011 þegar hún tók þátt í flutningi á Jóhannesarpassíu Bachs ásamt Mótettukór Hallgrímskirkju á þrennum tónleikum í Hallgrímskirkju og í Hofi á Akureyri og 2012 þegar sveitin flutti Jólaóratóríu J. S. Bachs í Hörpu á 30 ára afmæli Mótettukórsins undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag hefur jafnan hlotið ríkulegt lof gagnrýnenda og áheyrenda fyrir leik sinn.