Finnboga Pétursson - YFIR OG ÚT
Yfir og út
01/06/2019
David Cassan
VIVALDI ÁRSTÍÐIRNAR Á KLAISINN og PICCOLOTROMPETAR Í HÁTÍÐARSKAPI á KIRKJULISTAHÁTIÐ miðvikudaginn 5. júní kl. 20
05/06/2019

FJÓRIR LITIR

Finnbogi Pétursson

Finnbogi Pétursson

Ferningur. Hringur. Þríhyrningur. Geómetrísk grunnform.

Óaðfinnanlegur ferningur, fullkominn hringur, hreinn þríhyrningur. Sem um tilurð eða smíði eru háð hugviti og nákvæmnum verkfærum. Sem um lestur eða túlkun eru háð ákveðinni menningu, fræðilegum tilvísunum. En sem um persónulega upplifun í rými er ekki háð neinu nema skynjun. Skynjun hvers og eins, á sínum forsendum og sínum stað, í sínum náttúrulega, ófullkomna líkama, í sínum náttúrulega, breyska mannleika.

Á sýningu Kirkjulistarhátíðar í ár er sótt aftur í aldir. Aftur til þess tíma þegar sjónskyn var ekki enn komið í hásæti virðingar, aftur til þess tíma þegar önnur skynfæri eins og heyrn eða snerting voru enn grunnurinn í skynjun okkar og skilningi á heiminum. Aftur til þess tíma sem samskipti manna byggðust á samtali og líkamlegri hlustun, frekar en skrifuðum texta. Til þess tíma sem þrívítt, efniskennt rými rammaði inn snertingu okkar við heiminn. En hér er líka snert á galdri vísinda og hreyfikrafti hreinnar geómetríu í miskunnarlausu aðdráttarafli sjónrænnar ögunar.

Listamaðurinn Finnbogi Pétursson hugsar ferning, smíðar ferning. Hann hugsar hring, smíðar hring. Listamaðurinn gerir fimm ferninga. Hann gerir tvo hringi. Setur upp hornrétt, raðar í hring. Listamaðurinn staðsetur form sín í tveimur byggingum, á þremur stöðum, og dregur þannig upp (óhlutbundinn) þríhyrning þeirra á milli. Sem í sjálfu sér vekur ákveðin hughrif, ákveðinn kraft: fullkomlega dregin, óaðfinnanleg form, skýr lestur.

Við fyrstu sýn eru þetta einföld verk; í Hallgrímskirkju eru það annars vegar ferningslaga málmplötur sem settar eru upp á veggfleti hins ferningslaga forrýmis og hins vegar hringlaga stálkróna hengd í loft kirkjuskipsins sem teygir sig upp í óendanleikann með bogadregnum línum þaksins, og í Ásmundarsal handan götunnar eru það ferningslaga form sem raðað er í stóran hring á gólfi undir árvökulu auga málmplötu á endavegg ósamhverfs rýmisins.

En ekki er allt sem sýnist. Til viðbótar hreinu formi efnis í rými, bætir listamaðurinn við óefniskenndum þáttum sem sóttir eru í heim hljóðsins. Í kirkjuskipið sækir hann lágvært hvísl, hósta, tilviljanakennt skvaldur eða tifandi þögn með næsta ósýnilegum hljóðnemum sem felast í hringlaga krónunni hátt yfir höfðum manna. Í forsalnum fæðir hann dáleiðandi eigin tíðni málmsins með dvergsmáum nemum aftan á ferningslaga plötunum og vekur áleitinn riðandi tón úr iðrum efnisins. Hljóðið fær endanlega mynd sína af víðfeðmu rýminu sem rammað er inn af umlykjandi formi byggingarinnar, það er handsamað, magnað og því miðlað í gegnum himinhvolfið þvert á steypta veggi húsanna, þvert á borgarland umhverfisins yfir í lágstemmt rými listasafnsins handan götunnar. Sjónrænt viðmót verkanna, ferninga sem hrings, missir fótanna, gefur eftir fyrir annarri tjáningu; óefniskenndri hlustun sem römmuð er inn í opnum hring á miðju gólfi, fjarri uppsprettu hins eiginlega hljóðs.

Ekki er allt sem sýnist. Til viðbótar efni og hljóði, sem nemur rými ákveðins staðar og teiknar það upp fyrir líkamlegri hlustun á öðrum stað, beitir listamaðurinn einnig litum sem sóttir eru í staðbundið landslag borgarinnar utan við kirkju og safn. Algengum litum af klæðningu húsa, sem rétt eins og raddir mannanna í kirkjunni eru handsamaðir og eimaðir á ferningslaga fleti í ferningslaga rými með tilvísun í margvíslegar raddir íbúanna í borginni, persónulegar raddir málmplötuklæddra bygginga í samfélagi manna. Einhverra hluta vegna eru litirnir þeir sömu og valdir hafa verið fyrir margt löngu til að staðfesta fjórar tíðir kirkjuársins, eima þær í rauðan lit og grænan, hvítan og fjólubláan sem ólíkt húsunum í borginni eru mettaðir táknrænni merkingu, hlaðnir fræðilegum tilvísunum í ákveðna menningu, ákveðið skipulag og skilning á mynd heimsins.

Fjórir litir, sóttir í sameiginlegt almenningsrými borgarinnar. Fjórir litir, sóttir í samfélag manna. Og einn til viðbótar. Á málmplötunni stöku sem stendur utan kirkju, inni á safni með árvökult auga á þeim sem hætta sér hingað, leyfa forvitninni að toga sig hingað yfir götuna til að stíga inn í hring, loka augunum og leggja við hlustir. Fimmti liturinn er koksgrár og vísar í þann lit sem mest er tekinn á málmklæddar byggingar borgarinnar þessa dagana. Koksgrár, rólegur, jarðbundinn. Laus við fræðilegar tengingar og táknrænar tilvísanir nema til hins jarðbundna lífs í húsunum í borginni. Mögulega þeim mun tilfinnanlegri í raun þar sem hljóðið innan hringsins á miðju gólfi salarins í safninu kemur beint úr iðrum kirkjunnar, bæði skvaldur, hvísl og suðandi þögn. Þögn sem aldrei er alger, því rými kirkjuskipsins hefur sína eigin innri hljóðtíðni. Rétt eins og manneskjan hefur sína eigin innri tíðni og ólíka öðrum, en litast af samvistum við aðra, samskiptum, samtali og líkamlegri nánd.

Listamaðurinn hugsar geómetrísk form. Hann smíðar hrein form í efni; ferning, hring, þríhyrning sem bera með sér táknrænar tilvísanir í menningarsögu sjónlista. En hann hugsar ekki síður óefniskennda skynjun hljóðs, sem hann handsamar og höndlar eins og um efni væri að ræða, nema það efni verður ekki numið með augunum heldur líkamlegri hlustun, raunverulegri staðsetningu manns í rými, bæði því sem umlykur og því sem er innra með manni.

Tvö andans hús, hvert á sinn hátt, ljá undruninni rými. Föst stærð verður endalaus.