Nordic Affect

Nordic Affect

Nordic Affect

Starf Nordic Affect einkennist af nýstárlegri nálgun og frumleika í verkefnavali en hópurinn hefur frá upphafi haft það að markmiði að flytja tónlist 17.og 18.aldar í bland við hina spennandi tónsköpun okkar tíma. Allir meðlimir hópsins eiga að baki nám í sagnfræðilegum hljóðfæraleik og koma reglulega fram víða um Evrópu. Nordic Affect dregur nafn sitt af yfirlýstu markmiði tónskálda á barokktímanum; að laða fram hughrif og miðla tilfinningum eða affect í gegnum tónlist.

Nordic Affect hefur frá upphafi starfs síns árið 2005 komið fram á Íslandi, í Danmörku, Frakklandi, Belgíu, Finnlandi, Hollandi og Bretlandi og hefur verkefnaval spannað allt frá danstónlist 17. aldar til hinnar framsæknu raftónlistar okkar tíma. Nordic Affect hefur hljóðritað fyrir Ríkisútvarpið og Samband Evrópskra Útvarpsstöðva. Einnig hefur hópurinn pantað og frumflutt fjölda verka og hafa tvö þeirra; Händelusive eftir Huga Guðmundsson og Sofandi Pendúll eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur verið valin á heiðurslista Alþjóðlega Tónskáldaþingsins. Leik Nordic Affect er að finna á geisladiskum frá Deutsche Grammophon, Smekkleysu, Musmap og Brilliant Classics og hafa þeir hlotið Íslensku Tónlistarverðlaunin og Kraumsverðlaunin ásamt frábærum viðtökum í erlendum tónlistarblöðum. Í lok júlí kemur út nýr diskur hópsins á vegum bandaríska útgáfufyrirtækisins Sono Luminus. Hópurinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013 og var í fyrra valinn Flytjandi ársins innan sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum. Nordic Affect var jafnframt Tónlistarhópur Reykjavíkur 2014 og var aftur í ár tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem Flytjandi ársins.

Listrænn stjórnandi Nordic Affect frá upphafi er Halla Steinunn Stefánsdóttir.

Heimasíða: www.nordicaffect.com