Olivier Latry

Olivier Latry

Olivier Latry

Olivier Latry er aðal organisti Notre-Dame dómkirkjunnar í París og orgelprófessor við Parísarkonservatoríið.

Olivier var aðeins 23 ára að aldri þegar hann var hann ráðinn við þessa æðstu kirkju Frakklands árið 1985 og skaust hratt upp á stjörnuhimininn í kjölfarið. Á ferli sínum hefur hann komið fram í meira en fimmtíu löndum í fimm heimsálfum, bæði á einleikstónleikum og með hljómsveit. Á löngum lista útgefinna verka eru m.a. heildarorgeltónsmíðar Olivier Messiaën, gefnar út hjá Deutsche Grammophon, orgelkonsert Poulenc og 3. sinfónía Saint-Saëns sem hann lék með Sinfóníuhljómsveit Fíladelfíu undir stjórn Christoph Eschenbach og Ondine gaf út. Hann gaf síðan nýverið út tvo diska hjá franska útgefandanum Naïve, annan leikinn á pedalpíanó (piano-pédalier) Erards (1853) úr Tónlistarsafninu í París (verk eftir Boëly, Schumann, Brahms, Alkan og Liszt), hinn helgaðan forverum sínum (Trois siècles d’orgue à Notre-Dame de Paris eða Þrjár aldir orgelsins í Notre-Dame kirkjunni í París).

Olivier er handhafi „Fondation Cino et Simone Del Duca“ verðlaunanna árið 2000 en hlaut einnig „Fellowship Honoris Causa“ úr North and Midlands School of Music á Bretlandseyjum árið 2006 og frá Royal College of Organists árið 2007. Hann var einnig útnefndur „Interntional performer of the year“ af American Guild of Organists í New York árið 2009. Í júní 2010 var hann gerður að heiðursdoktor við McGill háskólann í Montréal og 2012 var hann útnefndur organiste émérite við Sinfóníuhljómsveit Montréal.