Robin Blaze

Robin Blaze

Robin Blaze

Það er mikill fengur fyrir Kirkjulistahátíð að fá kontratenórinn Robin Blaze til samstarfs við sig en þetta er í þriðja sinn sem hátíðin á því láni að fagna. Robin Blaze hóf söngferil sinn sem kórdrengur í Magdalen College í Oxford, og á fyrstu upptökum sem gerðar voru með honum, söng hann drengjasópran. Hann útskrifaðist síðan með tónlistargráðu frá sama skóla og lærði á flautu, píanó og orgel auk söngsins. Hann hlaut styrk til framhaldsnáms við Royal College of Music og tók að því námi loknu strax við prófessorsstöðu í söng við sama skóla.

Hann hefur haslað sér völl meðal fremstu túlkenda verka Purcells, Bachs og Handels og hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um heimsbyggðina sem flytjandi þeirra; um alla Evrópu, Suður- og Norður-Ameríku, Japan og Ástralíu. Hann hefur sungið fjöldamörg hlutverk í óperum frá endurreisnar- og barokktímanum, sérstaklega eftir Monteverdi og Handel; en einnig í 20. og 21. aldar óperum eins og t.d. Midsummer’ Night Dream eða Draumi á Jónsmessunótt eftir Benjamin Britten og A Shining Piece eftir Geriant Lewis. Hann hefur einnig sungið aðra tónlist eftir samtímatónskáld, til dæmis hefur hann sungið fjölda verka eftir enska tónskáldið Thomas Adés.

Blaze hefur sungið á ótal tónlistarhátíðum, í Ambronay, Barossa Valley, Beune, í Boston og Edinborg, Halle, Innsbruck, Leipzig, Luzerne, Saintes, Utrecht, í Jerúsalem og á Íslandi er þá ekki allt upp talið.

Robin Blaze hefur starfað með mörgum þekktum og dáðum stjórnendum á sviði endurreisnar- og barokktónlistar. Má þar nefna Harry Christophers, Emmanuelle Haïm, Philippe Herreweghe, Christopher Hogwood, Ton Koopman, Paul Goodwin, Gustav Leonhardt, Robert King, Nicholas Kraemer, Sir Charles Mackerras, Trevor Pinnock og Sir John Eliot Gardiner. Vinna hans með Masaaki Suzuki og Bach Collegium Japan, sem bæði hefur verið í formi tónleika og útgáfu hljómdiska, hefur fengið mikið lof gagnrýnenda; t.d. hafa útgáfur Suzuki á H-moll messu Bachs og þeim þremur kantötum hans sem innihalda kontratenórhlutverk verið hrósað í hástert af gagnrýnendum tónlistartímaritsins Gramophone.

Blaze hefur einnig gefið út hjá öllum helstu útgáfufyrirtækjum heims sem sérhæfa sig í upprunaflutningi, eins og BIS, Hyperion, EMI, DG Archiv og Harmonia Mundi.

Hér á landi hefur hann þrívegis áður sungið með kórum Hallgrímskirkju á Kirkjulistahátíð: Árið 2005 söng hann burðarhlutverk í Mattheusarpassíu Johanns Sebastians Bachs ásamt Mótettukór Hallgrímskirkju og Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag, en það var í fyrsta sinn sem hún var flutt á upprunahljóðfæri hér á landi. Árið 2007 söng hann í H-moll messu Bachs, einnig ásamt Móttettukórnum og Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag og tók þátt í frumflutningi hérlendis á óratóríunni Ísrael í Egyptalandi eftir Georg Friderich Handel, ásamt Schola cantorum og sömu hljómsveit, allt undir stórn Harðar Áskelssonar. Robin Blaze kom einnig fram  á Sumartónleikum í Skálholti árið 1999, ásamt bresku barokksveitinni Concordia.