Þóra Einarsdóttir

Þóra Einarsdóttir Sópransöngkonan Þóra Einarsdóttir stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og framhaldsnám við Guildhall School of Music and Drama hjá prof. Laura Sarti. Hún þreytti frumraun sína við Glyndebourne Festival Opera aðeins 23 ára gömul. Hún vakti snemma athygli fyrir vandaðan söng og heillandi framkomu. Þóra steig fyrst á svið Íslensku óperunnar 18 ára gömul í einsöngshlutverkum í Rigoletto og í Töfraflautunni og kom fyrst fram sem einsöngvari á vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1995 á meðan hún var enn í námi.

Þóra hefur sungið óperuhlutverk, á sinfóníutónleikum, í kirkjulegum verkum og á ljóðatónleikum víða um heim. Hún var fastráðin við óperuhúsið í Wiesbaden í Þýskalandi í um 7 ára skeið og hefur m.a. sungið óperuhlutverk við  ensku þjóðaróperuna, Opera North, Mannheim, Nürnberg, Darmstadt, Berlín, Basel, Salzburg, Bologna, Malmö, Genf, Lausanne og Prag.

Þóra kemur reglulega fram á tónleikum á Íslandi og víða erlendis, m.a hefur hún sungið í Royal Albert Hall, Royal Festival Hall og Barbican Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Philharmonie am Gasteig, Kennedy Center Washington og Carnegie Hall New York og með hljómsveitum á borð við Orchestre de la Suisse Romande, Bach Collegium München, Rundfunk-Sinfonieorchester Berlin, Konzerthausorchester Berlin, The Philharmonia Orchestra, Beethoven Orchester í Bonn, Duisburger Philharmonikern og Tonkünstler- Orchester. Meðal fjölda hljómsveitarstjóra sem Þóra hefur unnið með eru Sir Neville Marriner, Osmo Vänska, Lothar Zagrosek, Christopher Warren-Green, Sir Elgar Howarth, Pinchas Steinberg, Hansjörg Albrecht, Petr Altrichter, Marc Piollet, Jonathan Darlington, Nicholas Kok, John Fiore, Paul Goodwin og David Parry.

Á ferli sínum hefur Þóra hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir söng og framlag sitt til tónlistar m.a. Dannebrog-orðuna og Hina íslensku fálkaorðu. Meðal hlutverka Þóru við Íslensku óperuna hin síðustu ár má nefna Adinu í Ástardrykknum, Gildu í Rigoletto, Pamínu í Töfraflautunni, Mimi í La Bohéme og Michaelu í Carmen. Skemmst er að minnast frammistöðu hennar titilhlutverki óperunnar Ragnheiður, eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson.