Um Kirkjulistahátíð

Listvinafélag Hallgrímskirkju hefur staðið fyrir Kirkjulistahátíð að jafnaði annað hvert ár frá vígslu kirkjunnar, fyrst vorið 1987 og er þetta fjórtánda hátíðin sem haldin er.

Hallgrímssöfnuður, Reykjavíkurprófastsdæmi og Kirkjumálasjóður hafa jafnan styrkt hátíðina, en aðrir styrktaraðilar eru Reykjavíkurborg og Menntamálaráðuneytið- Tónlistarsjóður, svo og erlend sendiráð o.fl. fyrirtæki. Alls koma um 300 listamenn fram á Kirkjulistahátíð 2015, þar af 49 erlendir listamenn.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi er Hörður Áskelsson kantor Hallgrímskirkju. Eiginkona hans, Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari, stýrir nú hátíðinni í 7. sinn, en hún hóf störf sem framkvæmdastjóri Kirkjulistahátíðar árið 2000.

Kirkjulistahátið 2015 verður prýdd heimsþekktum stjörnum úr erlenda kirkjutónlistarheiminum og má því segja að hátíðin í ár verði óvenju glæsileg. Má þar t.d. nefna komu hins heimsfræga kórstjóra og organista Stephen Cleobury frá King’s College Chapel í Cambridge ásamt kór sínum „King’s Men“, sem er 18 manna hópur ungra manna, sem þekktir eru fyrir frábæran söng.

Organisti Notre Dame kirkjunnar í París, Olivier Latry, sem talinn er í fremstu röð organista í heiminum í dag, kemur fram á tvennum orgeltónleikum, einleikstónleikum og tvíleikstónleikum ásamt eiginkonu sinni, kóreska organistanum Shin-Young Lee.

Þá hefur forsvarsmönnum hátíðarinnar tekist að fá einn frægasta kontratenórsöngvara heimsins í dag, Robin Blaze, til að syngja titilhlutverk í stærsta verkefni hátíðarinnar, sem er upprunaflutningur á óratóríunni Salómon eftir Georg Friedrich Händel, sem nú verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi laugardaginn 15. og sunnudaginn 16. ágúst.

Þar koma við sögu um 95 flytjendur, 5 einsöngvarar, Alþjóðlega barokksveitin frá Den Haag skipuð 30 hljóðfæraleikurum og Mótettukór Hallgrímskirkju, skipaður 60 söngvurum. Áður hefur Hörður ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni og kórum sínum flutt í fyrsta sinn á Íslandi óratóríur Händels, Jósúa, Ísrael í Egyptalandi og Messías við mikið lof.

Á Sálmafossi koma fram margir innlendir og erlendir kórar og organistar, en þá verða m.a. frumfluttir 5 nýir íslenskir sálmar eftir 10 konur í samvinnu við Tónmenntasjóð kirkjunnar. Á hátíðinni koma „King’s Men“ frá Cambridge fram á kvöldtónleikum, á þrennum tónleikum á Sálmafossi, við Evensong og í hátíðarmessu á lokadegi hátíðarinnar.

Schola cantorum syngur lokatónleika hátíðarinnar og frumflytur m.a. nýja Messu fyrir einsöngvara, kór og hörpu eftir John A. Speight, sem fagnar 70 ára afmæli á árinu.

Myndlistarmaður Kirkjulistahátíðar er Helgi Þorgils Friðjónsson og mun hann halda veglega sýningu á verkum sínum, tengdum kirkjulist og trú. Þar verða m.a. sýnd verk sem ekki hafa áður verið sýnd opinberlega.

Að auki verður efnt til fjölbreytts og veglegs helgihalds og fyrirlestra, m.a. í tengslum við 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags.