Dagskrá Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju 1. – 10. júní 2019
Kirkjulistahátíðin 2019
31/05/2019
Finnbogi Pétursson
FJÓRIR LITIR
01/06/2019

Yfir og út

Finnboga Pétursson - YFIR OG ÚT

Finnbogi Pétursson:

YFIR OG ÚT

Hallgrímskirkja / Ásmundarsalur
1. júní – 30. júní 2019

Hallgrímskirkja
1. júní – 1. september 2019

Myndlistarsýning Finnboga Péturssonar, YFIR OG ÚT, verður opnuð við setningu Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju laugardaginn 1. júní 2019, kl.15.00.

Aðgangur er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.

Sýningin er í tveimur hlutum, annars vegar í Hallgrímskirkju, kirkjuskipi og forkirkju og hins vegar í Ásmundarsal v/Freyjugötu. Eftir að sýningin hefur verið opnuð í kirkjunni verður gengið fylktu liði yfir í Ámundarsal þar sem sýning Finnboga, sem tengist beint Hallgrímskirkjusýningunni, verður opnuð. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Sýningin er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju, í tengslum við Kirkjulistahátíð 2019 og Ásmundarsal. Sýningastjóri er Rósa Gísladóttir.

Verkin sem Finnbogi hefur gert sérstaklega fyrir þessa sýningu eru annars vegar 8 míkrófónar staðsettir á hringlaga stálkrónu, sem staðsettir eru í miðju kirkjuskipinu í 8 m hæð og 8 hátalarar sem staðsettir eru í hring í Ásmundarsal.

Finnbogi flytur hljóð og rými hins gríðarlega kirkjuskips Hallgrímskirkju yfir í tiltölulega lítið rými Ásmundarsals. Allt sam fram fer í krikjunni kemur til með að heyrast þar.

Þessi sýning stendur til 30. júní 2019 og er opin alla daga kl. 9 – 17.

Hins vegar hefur hann raðað fjórum álplötum með mismunandi litium kirkjuársins á veggi forkirkjunnar, og stendur sú sýning til 1. september 2019.

Eins og Guja Dögg Hauksdóttir segir í texta í sýningarskrá:

„Listamaðurinn Finnbogi Pétursson hugsar ferning, smíðar ferning. Hann hugsar hring, smíðar hring. Listamaðurinn gerir fimm ferninga. Hann gerir tvo hringi. Setur upp hornrétt, raðar í hring. Listamaðurinn staðsetur form sín í tveimur byggingum, á þremur stöðum, og dregur þannig upp (óhlutbundinn) þríhyrning þeirra á milli. Sem í sjálfu sér vekur ákveðin hughrif, ákveðinn kraft: fullkomlega dregin, óaðfinnanleg form, skýr lestur.

Við fyrstu sýn eru þetta einföld verk; í Hallgrímskirkju eru það annars vegar ferningslaga málmplötur sem settar eru upp á veggfleti hins ferningslaga forrýmis og hins vegar hringlaga stálkróna hengd í loft kirkjuskipsins sem teygir sig upp í óendanleikann með bogadregnum línum þaksins, og í Ásmundarsal handan götunnar eru það ferningslaga form sem raðað er í stóran hring á gólfi undir árvökulu auga málmplötu á endavegg ósamhverfs rýmisins.“

„Á sýningu Kirkjulistarhátíðar í ár er sótt aftur í aldir. Aftur til þess tíma þegar sjónskyn var ekki enn komið í hásæti virðingar, aftur til þess tíma þegar önnur skynfæri eins og heyrn eða snerting voru enn grunnurinn í skynjun okkar og skilningi á heiminum. Aftur til þess tíma sem samskipti manna byggðust á samtali og líkamlegri hlustun, frekar en skrifuðum texta. Til þess tíma sem þrívítt, efniskennt rými rammaði inn snertingu okkar við heiminn. En hér er líka snert á galdri vísinda og hreyfikrafti hreinnar geómetríu í miskunnarlausu aðdráttarafli sjónrænnar ögunar.“

Um Finnboga Pétursson.

Finnbogi Pétursson

Finnbogi Pétursson

Finnbogi Pétursson, fæddur í Reykjavík 1959, hélt fyrstu sýningu sína árið 1980 og er einn af fremstu myndlistarmönnum á Íslandi. Hann er þekktur fyrir verk þar sem saman koma hljóð, ljós, skúlptúr, arkitektúr og teikningar. Þar gegnir hljóð iðulega mikilvægu hlutverki og rennur saman við innsetningar og rýmisverk. Finnbogi kom fram á Feneyjatvíæringnum fyrir Íslands hönd árið 2001 með hinni tröllauknu hljóðinnsetningu sinni Diabolus.

Meðal listasafna sem hýsa verk Finnboga má nefna T-B A21 í Vínarborg, Michael Krichman og Carmen Cuenca-safnið í Bandaríkjunum, Listasafnið í Malmö, Nordiska Akvarell-safnið í Svíþjóð og Listasafn Íslands.

Verk hans er einnig að finna í höfuðstöðvum Landsvirkjunar, í Vatnsfellsvirkjun, Háskólanum í Reykjavík, á sjúkrahóteli Landspítalans ( klæðningin )  og í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Finnbogi býr og starfar í Reykjavík.

listvinafelag.is

asmundarsalur.is